LJÓSMYNDAMIÐSTÖÐ ÍSLANDS
UM FÉLAGIÐ
Síðastliðið haust var ákveðið að stofna regnhlífasamtök til að skapa sameiginlegan vettvang fyrir alla ljósmyndara á Íslandi með svipað hlutverk og Kvikmyndamiðstöð, Hönnunarmiðstöð o.s.frv. Félagið fékk nafnið Ljósmyndamiðstöð Íslands (LMÍ.). LMÍ verða regnhlífasamtök fyrir alla ljósmyndara (einstaklinga) á Íslandi en starfsemi þess hefur ekki nein áhrif á starfsemi annarra félaga ljósmyndara þar sem allir geta verið félagar í LMÍ burtséð frá aðild að öðrum félögum ljósmyndara.
Tímarnir eru breyttir og eiga til að breytast enn frekar á næstu misserum núna þegar Facebook, Instagram og fleiri miðlar eru skyldug til að greiða myndhöfundum stefgjöld. Félagið er því m.a. vettvangur fyrir þessa erlendu risa til að geta greitt íslenskum ljósmyndurum og fyrir félagið að nálgast alla ljósmyndara á einfaldan hátt, rukka innlend höfundarréttargjöld og greiða myndhöfundum úr stefgjöldum frá bókasafnsjóði, ljósritunarsjóði og fleiri sjóðum sem flestir ljósmyndarar vissu ekki einu sinni að þeir ættu fjárkall til.
Mikilvægt er að til séu svona samtök sem hafa aðgang að ljósmyndastéttinni á einum stað. Þannig minnkar flækjustigið til að nálgast myndhöfunda og koma tekjunum á rétta staði, líkt og tónlistarstefgjöldin hafa verið í mörg ár og til að efla samstöðu allra ljósmyndara í styrkjamálum og vexti hérlendis sem og erlendis, því við erum alltaf sterkari sem ein heild þegar til stærri málefna er litið. Úr lögum félagsins:
„Félagið skal mynda samstöðuvettvang, gæta sameiginlegra hagsmuna ljósmyndara og efla samvinnu milli ljósmyndara sem starfa á Íslandi. Félagið er sameiginlegur vettvangur allra ljósmyndara vegna málefna er snerta höfundarétt alls fagsins, bæði hérlendis sem og erlendis, eftir atvikum í samstarfi við viðurkennda umsýslustofnun vegna verka ljósmynda. Að lokum skal félagið fylgjast með þróun styrkjaumhverfis og starfslaunasjóða, og annarra opinberra málefna og hagsmuna er snerta félagsmenn og félagið. Félagið starfar ávallt með sameiginlega hagsmuni allra ljósmyndara að leiðarljósi“.
Árgjaldið er 0.- krónur en félagið nýtur stuðnings Myndstefs og annara hagsmunafélaga ljósmyndara.
Smellið á hlekkinn hér að neðan til að skrá sig í félagið